Heildarlaun Björgólf Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group, á síðasta ári voru um 39 milljónir króna eða um 3.2500 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri Icelandair Group fyrir árið 2010 sem kynnt var fyrr í dag. Rétt er þó að taka fram að þarna er um að ræða laun og önnur hlunnindi.

Þá námu laun Sigþórs Einarssonar, aðstoðarforstjóra, tæpum 23 milljónum króna fyrir síðasta ár, eða 1,9 milljón króna að meðaltali á mánuði. Hér er einnig um að ræða heildarlaun með hlunnindum en laun Sigþórs lækkuðu nokkuð á milli ára, eða um tæpar 3 milljónir króna. Sigþór lét nýlega af störfum hjá félaginu.

Heildarlaun Boga Nils Bogasonar, fjármálastjóra Icelandair Group voru rúm 21 milljón króna, eða tæpar 1,8 milljón króna á mánuði.

Í ársreikningi félagsins eru gefin upp laun stjórnenda þriggja stærstu dótturfélaga Icelandair Group. Heildarlaun Birkis Hólm Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair,  voru tæpar 23 milljónir króna á árinu, sem gerir um 1,9 milljón króna á mánuði. Þá voru heildarlaun Gunnars Más Sigurfinnssonar, framkvæmdastjóra Icelandair Cargo rúmar 19 milljónir á árinu, eða um 1,6 milljón króna á mánuði og heildarlaun Guðna Hreinssonar, framkvæmdastjóra Loftleidir – Icelandic tæpar 17 milljónir króna á árinu, eða 1,4 milljón króna á mánuði.

Loks nam launakostnaður 8 helstu stjórnenda dótturfélaga Icelandair Group um 129,4 milljónum króna eða 16,2 milljón króna á mann að meðaltali. Það þýðir að hver stjórnandi dótturfélaga samstæðunnar hafi haft að meðaltali um 1,3 milljónir króna í árslaun. Þetta eru nokkuð minni upphæðir en frá árinu 2009.

Ljóst má þó vera að stjórnendur dótturfélaga samstæðunnar eru með misjafnar tekjur eftir stærð og umsvifum félaganna, því ber að taka ofangreinum upplýsingum með þeim fyrirvara.

Til gamans má geta þess að fyrr í dag var greint frá því að laun forstjóra Össurar voru rúmar 13 milljónir króna á mánuði á síðasta ári.