Síðdegis í dag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, fyrirtækinu Icelandair Group Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þetta kemur fram í tilkynningu. Það var Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Arnaldur Indriðason, rithöfundur, fékk sérstaka heiðursviðurkenningu við sama tilefni. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð.

Í tilkynningunni segir að Icelandair Group hafi fengið verðlaunin fyrir þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í að laða til landsins erlenda gesti og greiða för landsmanna til annarra landa, með þróun viðskiptahugmyndar, sem hefur í raun breytt upplifun á landfræðilegri stöðu landsins.

Björgólfur Jóhannesson er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .