Gengi hlutabréfa Icelandair Group tók flugi í Kauphöllinni í dag og rauk upp um 4,65% í viðskiptum upp á rétt tæpa 98 milljónir króna. Gengið stendur nú í 6,53 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra síðan félagið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu eftir að kröfuhafar fyrri stóru eigenda félagins tóku það yfir.

Fyrir bankahrunið stóð gengi hlutabréfa Icelandair Group hæst í rúmum 30 krónum á hlut.

Þá hækkaði gengi hlutabréfa Haga um 0,54% og Marel um 0,31%. Gengi bréfa Marel stendur í hæstu hæðum, 161,5 krónum á hlut.

Ekki var hreyfing á gengi annarra félaga sem skráð eru Í Úrvalsvísitölunni.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,42% og endaði hún í rétt rúmum 1.085 stigum.