*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 30. október 2014 16:41

Icelandair Group hagnast um 10,4 milljarða króna

Forstjóri Icelandair Group segir að fjárhagsleg staða félagsins sé mjög sterk en uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung hefur nú verið birt.

Ritstjórn
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair Group hagnaðist um 85,8 milljónir dollara (10,4 milljarða króna) á þriðja ársfjórðungi. Þetta er töluvert meira en á sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 65,3 milljónir dollara (7,9 milljarða króna).

Heildartekjur félagsins jukust um 13% og EBITDA nam 123,9 milljónum dollara (15,1 milljarði króna). EBITDA á sama tímabili í fyrra nam 102,2 milljónum dollara (12,4 milljörðum krónum).

Samkvæmt uppgjörinu var eigiðfjárhlutfall 46% í lok september. Handbært fé frá rekstri nam 5,8 milljónum dollara (706 milljónum króna) samanborið við 30,3 milljónir dollara (3,7 milljarða króna) árið áður.

„Millilandaflug félagsins gekk vel á þriðja ársfjórðungi og var afkoma þess mjög góð," er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu. „Framboð í leiðakerfinu var aukið um 19% frá fyrra ári. Sætanýting var 84,2%, og jókst um 0,7 prósentustig frá fyrra ári. Tæplega 970 þúsund farþegar ferðuðust með félaginu í fjórðungnum og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Aukin umsvif í millilandaflugi ásamt mikilli fjölgun ferðamanna til Íslands höfðu jákvæð áhrif á aðra starfsemi samstæðunnar.
Hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi nam 85,8 milljónum USD og jókst um 20,5 milljónir USD frá fyrra ári. Fjárhagslega er félagið mjög sterkt og tilbúið til þess að takast á við verkefni framtíðarinnar, en þegar hefur verið tilkynnt um áætlanir um 12% vöxt í millilandaflugi á næsta ári.

Vegna góðs gengis á þriðja ársfjórðungi gerum við nú ráð fyrir að EBITDA ársins 2014 muni nema 150-155 milljónum USD sem er hækkun frá áður útgefinni afkomuspá.“