Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 2,06% í tæplega 75 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta gengishækkun dagsins. Á sama tíma hækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 1,21%.

Á móti lækkaði gengi bréfa Vodafone um 1,05% í dag. Gengi bréfa félagsins féll um næstum 3% þegar verst lét við upphaf viðskiptadagsins og rifjaði vb.is upp fyrr í dag að það hafi lækkað nær viðstöðulaust síðan uppgjör Vodafone um afkomuna á fyrsta ársfjórðungi var birt á miðvikudag í síðustu viku. Þá var rifjað upp að í nýlegu verðmati IFS greiningar á Vodafone sem vb.is birti í síðustu viku er virðismatsgengið 24,2 krónur á hlut og mælt með sölu hlutabréfanna. Gengi hlutabréfa Vodafone endaði í 28,3 krónum á hlut í dag.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Haga um 0,34%.

Lítil velta

Gengishækkun Icelandair Group hélt Úrvalsvísitölunni uppi í dag. Hún hækkaði um 0,29% og endaði í 1.126,77 stigum. Hún hefur hækkað um 6,4% frá áramótum. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam tæpum 457 milljónum króna í dag. Það er mjög lítið samanborið við meðaltalið í síðasta mánuði þegar veltan nam 1.356 milljónum króna á dag.