Icelandair Group Holding hf. verður skráð á Aðallista Kauphallar Íslands á morgun 14. desember. Icelandair Group er fyrsta íslenska félagið til að skrá bréf sín í Kauphöllina nú þegar hún er orðin hluti af OMX Nordic Exchange.


Í fréttatilkynningu Kauphallarinnar kemur fram að Icelandair Group Holding hf. er eignarhaldsfélag sjálfstæðra þjónustufyrirtækja sem starfa á sviði flug- og ferðaþjónustu og í tengdri starfsemi. Hlutverk félagsins er að ávaxta hlutafé eigenda með því að stýra og samhæfa arðbærum rekstri og vexti þessara fyrirtækja. Starfseminni er skipt í þrjú áherslusvið, alþjóðlegan flugrekstur, leiguflug og flugvélaviðskipti, og ferðaþjónustu. Stærst dótturfyrirtækjanna er millilandaflugfélagið Icelandair sem stundar alþjóðlegt áætlunarflug um Keflavíkurflugvöll og þjónar 25 áfangastöðum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Félagið, sem var í eigu FL Group hf. var selt nýjum kjölfestufjárfestum, starfsmönnum og almenningi og er því aftur komið á markað sem félag í svipuðum rekstri og fyrirrennari þess Flugleiðir hf. sem var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992. Á sínum tíma var félagið hið áttunda til að skrá bréf sín í Kauphöllina. Heildarhlutafé Icelandair Group Holding er 1.000.000.000 . Alls voru 185.000.000 hlutir seldir almenningi, starfsmönnum og fagfjárfestum í útboði sem fram fór dagana 27. nóvember til 4. desember sl. Virði félagsins miðað við útboðsgengi er því 27 milljarðar.

?Það er ákaflega ánægjulegt að bjóða Icelandair Group Holding velkomið í Kauphöllina á þessum tímamótum. Icelandair á sér langa og merkilega sögu og vera þess í Kauphöllinni mun án efa styrkja það í framtíðinni. Með þessu mun samgöngugeirinn jafnframt stækka og valkostum fjárfesta fjölga. Við teljum enn fremur mikilvægt að alþjóðlegir fjárfestar munu geta borið Icelandair Group Holding saman við samskonar félög á Nordic list OMX kauphallanna sem Kauphöllin mun taka þátt í fljótlega á nýju ári,? segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar í fréttatilkynningu sem send var út í tilefni af skráningunni.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group Holding, sagði: "Þetta er stór stund fyrir okkur. Icelandair Group Holding hefur vaxið hratt á undanförnum misserum og það er mjög ánægjulegt að það skuli í raun snúa aftur í Kauphöllina sterkara en nokkru sinni fyrr. Allir eru sammála að starfsemi þess skipti miklu máli fyrir íslensku þjóðina og Icelandair Group Holding er eitt þeirra fyrirtækja sem sannarlega á heima í Kauphöllinni. Ég er sannfærður um að skráning þess verður til að styrkja vöxt okkar enn frekar og hlakka til að vinna fyrir hluthafana."