Á hluthafafundi Icelandair Group Holding, sem haldinn var 29. desember 2006, voru samþykktar þær þrjár tillögur sem lágu fyrir fundinum, segir í tilkynningu.

Fundurinn samþykkti tillögu um samruna Icelandair Group Holding hf. og dótturfélags þess, Icelandair Group hf., undir merkjum dótturfélagsins, í samræmi við áætlun sem kynnt var í skráningarlýsingu Icelandair Group Holding hf. til Kauphallar Íslands hf. frá 27. nóvember 2006. Dótturfélagið verður yfirtökufélagið við samrunann, og því verða hlutir hins sameinaða félags skráðir í Kauphöll Íslands hf., og í kjölfarið afskráðir hlutir Icelandair Group Holding hf. Er áætlað að sú aðgerð komi til framkvæmda í janúarmánuði 2007.

Einnig voru á hluthafafundinum samþykktar tvær heimildir til stjórnar, annars vegar um kaupréttaráætlun fyrir lykilstarfsmenn félagsins og/eða dótturfélaga þess og þar með heimild til útgáfu og sölu nýrra hluta í tengslum við kaupréttaráætlunina sem numið geta allt að 6% af heildarhlutafé félagsins, en hins vegar heimild stjórnar til kaupa á eigin hlutum.

Á stjórnarfundi að loknum hluthafafundinum var samþykkt kaupréttaráætlun fyrir lykilstjórnendur félagsins og dótturfélaga þess. Þessi áætlun er gerð til þriggja ára og er rétthöfum heimilt að nýta sér þriðjung heimildar ár hvert og einungis þá. Samningsgengi á hverjum samningi mun ákvarðast af meðalgegni hluta í félaginu í Kauphöll Íslands 10 viðskiptadaga fyrir gerð hvers samnings. Á grundvelli áætlunarinnar var forstjóra félagsins, Jóni Karli Ólafssyni boðinn kaupréttur að 5.000.000 hlutum, en jafnframt var kjaranefnd stjórnarinnar og forstjóra félagsins falið að ljúka kaupréttarsamningum við aðra lykilstjórnendur félagsins og/eða dótturfélaga, allt að 90 einstaklingar, en þó innan þeirrar heimildar um útgáfu nýrra hluta sem samþykkt var af hluthöfum félagsins fyrr um daginn, er tók til samtals allt að 60.000.000 hluta.