Icelandair Group hefur fest kaup á tveimur notuðum Boeing 757-200 farþegaflugvélum og munu þær bætast í flota félagsins í vor.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group en Icelandair mun þannig vera með 18 vélar í rekstri sumarið 2013 samanborið við 16 vélar sumarið 2012.

Báðar vélarnar eru á leið í hefðbundið innleiðingarferli  til að uppfylla staðla félagsins fyrir notkun og verða meðal annars ný sæti og skemmtikerfi sett í þær báðar. Í tilkynningunni kemur fram að kaupverðið, sem er trúnaðarmál,  var greitt með sjóðum félagsins.

Til gamans má geta þess að árið 2009 var félagið með 11 vélar í rekstri, eina 757-300 og tíu 757-200, og hefur þeim því fjölgað um 7 á fimm árum, eða 61%. Sumarið 2010 voru vélarnar orðnar 12, sumarið 2011 voru þær 14, sumarið 2012 voru þær orðnar 16 talsins og næsta sumar verða þær sem fyrr segir orðnar 18.

Uppfært kl. 10.00: Þær tvær vélar sem Icelandair Group hefur nú fest kaup á koma frá bandaríska flugfélaginu American Airlines, sem nú er í gjaldþrotameðferð þó félagið sé enn starfandi.