Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,83% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 1.714,83 stigum. Það sem af er ári hefur vísitalan lækkað um 8,8%. Samtals nam veltan í Kauphöllinni tæpum 6,5 milljörðum króna, þar af var 1,3 milljarða velta með hlutabréf en tæplega 5,2 milljarða velta með skuldabréf.

Mest viðskipti voru með bréf í Icelandair Group eða um 270 milljóna viðskipti. Bréfin í fyrirtækinu lækkuðu um 2,12% í þessum viðskiptum, sem var mesta lækkun dagsins. Í gær lækkaði Icelandair um 1,46% en þá voru einungis 15,5 milljóna króna viðskipti með bréfin.

Næsta mesta lækkunin var hjá Tryggingamiðstöðinni. Gengi bréfa fyrirtækisins lækkaði um 1,25% en það var í mjög litlum viðskiptum eða einungis 187 þúsund króna viðskiptum. Gengi bréfa í Marel lækkaði um 1,22% í 157 milljóna króna viðskiptum. Næst mest viðskipti voru með bréf í Högum, eða 221 milljóna króna viðskipti, og lækkaði gengi bréfanna um 0,37%.

Gengi bréfa í Össuri hf. hækkuðu mest í dag eð aum 1,33% í tæplega 29 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa í HB Granda hf. hækkuðu um 0,87% í tæplega 25 milljóna króna viðskiptum og gengi bréfa í fasteignafélaginu Reitum hækkaði um 0,85% í 150 milljóna króna viðskiptum.

Á skuldabréfamarkaði voru 4,3 milljarða viðskipti með óverðtryggð bréf.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði lítillega í dag í 4,4 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,2% í um 600 milljóna króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,3% í 3,8 milljarða viðskiptum.