Lífeyrissjóðirnir voru nokkuð umsvifamiklir í kaupum á bréfum í Icelandair Group á mánudag en sem kunnugt er seldi Framtakssjóður Íslands 10% hlut í félaginu fyrir 2,7 milljarða króna.

Framtakssjóðurinn, sem fyrir átti um 29% hlut, er jafnframt í eigu 16 lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.

Lífeyrissjóður verslunarmanna jók mest við sig í Icelandair Group á mánudag. Sjóðurinn átti fyrir 12,07% hlut í félaginu en jók við sig um 2,3 prósentuhlut og á nú 14,36% hlut í Icelandair Group. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) jók sinn hlut um 1,4 prósentustig, átti fyrir 6% en á nú 7,4%.

Þá jók Sameinaði lífeyrissjóðurinn sinn hlut um rúmt prósentustig, átti fyrir 1,02% en á nú 2,06%.

Þá koma tveir nýir lífeyrissjóðir inn á lista yfir 20 stærstu hluthafa Icelandair Group. Það eru Gildi lífeyrissjóður, sem nú á 1,05%, og Söfnunarsjóður lífeyrissréttinda sem nú á 0,65%. Þá bættu Stafir lífeyrissjóður lítillega við sig sem og Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna.

Allir fyrrgreindir aðilar eru meðal eiganda Framtakssjóðsins en samanlagt bættu þessir aðilar við sig 7% hlut í félaginu, eða meginþorra þess hluta sem boðinn var til sölu.

Þá juku Íslandsbanki og MP banki lítillega við sína hluta auk þess sem tveir sjóðir í eigu Stefnis juku einnig við sinn hlut í félaginu.

Íslandsbanki er nú stærsti einstaki hluthafinn í Icelandair Group og á 21,04% hlut í félaginu. Íslandsbanki er jafnframt helsti viðskiptabanki félagsins og hafði yfirumsjón með fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group í fyrra.

Hér má sjá listann yfir 20 stærstu hluthafa Icelandair Group:

  1. Íslandsbanki hf     21,04%
  2. Framtakssjóður Íslands     19,01%
  3. Lífeyrissjóður verslunarmanna     14,36%
  4. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins    7,40%
  5. Glitnir banki hf     3,64%
  6. Stefnir - ÍS-5     2,99%
  7. Stefnir - ÍS-15     2,75%
  8. Stafir lífeyrissjóður     2,27%
  9. Úrvalsbréf Landsbankans     2,13%
  10. Sameinaði lífeyrissjóðurinn     2,06%
  11. SPB hf     1,87%
  12. MP banki hf     1,40%
  13. Akkur SI     1,06%
  14. Gildi lífeyrissjóður     1,05%
  15. Íslandssjóðir     0,86%
  16. GAMMA: EQ1     0,83%
  17. Eftirlaunasj. atvinnuflugmanna     0,74%
  18. Alnus ehf     0,66%
  19. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda     0,65%
  20. Stefnir - Samval     0,64%