Dótturfélög Icelandair Group fluttu 171 þúsund farþega í október, sem er 9% aukning á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group sem nú sendir mánaðarlega frá sér flutningstölur. Síðustu mánuði hefur félagið jafnframt sent frá sér spá um EBITDA hagnað en slík spá er ekki birt með tilkynningu félagsins nú.

Farþegafjöldinn það sem af er ári hefur þó dregist saman um 5% milli ára og nemur rétt tæplega 1,8 milljónum farþega.

Í tilkynningunni kemur fram að tekjur félaganna jukust um 6% milli mánaða en hafa aftur á móti dregist saman um 7% á milli ára það sem af er ári. Þannig nema tekjurnar það sem af er ári rúmum 3,6 milljörðum króna.

Mesti samdrátturinn hefur átt sér stað í fraktflugi dótturfélega samstæðunnar en það sem af er ári hefur félagið flutt rúm 148 þúsund tonn af frakt sem er 29% samdráttur á milli ára.