Fjórir aðilar, þar af þrjú flugfélög, hafa boðið í tékkneska ríkisflugfélagið Czech Airlines samkvæmt upplýsingum frá tékkneska fjármálaráðuneytinu en stjórnvöld þar í landi hyggjast nú einkavæða flugfélagið.

Að sögn Dow Jones fréttaveitunnar er Icelandair Group, með óbeinum hætti, einn þeirra aðila sem gert hafa tilboð í félagið.

Icelandair Group er móðurfélag tékkneska flugfélagsins Travel Service sem ásamt öðrum félögum hafa myndað hóp sem lagt hefur fram tilboð í Czech Airlines.

Samkvæmt frétt Dow Jones hafa Air France og rússneska flugfélagið OJSC Aeroflot einnig lagt fram tilboð í flugfélagið en þá hefur fjárfestingasjóðurinn Odien AV III AS (sem er í eigu Odien Group sem er umsvifamikið fjárfestingafélag í A-Evrópu) einnig lagt fram tilboð.

Dow Jones hefur eftir heimildarmanni hjá Air France að tékknesk yfirvöld vonast að fá um 270 milljónir dala fyrir þann 91,5% hlut í félaginu sem er til sölu en vonast er til þess að söluferlinu ljúki í september.

Þá kemur fram að sá sem að lokum kaupir félagið kaupir það þó með þeim skilyrðum að höfuðstöðvar þess verði í Tékklandi og meginstarfssemi þessi verði áfram á Prague Ruzyne flugvellinum í Prag. Enn hefur ekkert verið upplýst um verðmæti tilboðanna.

Upplýsingafulltrúi tékkneska fjármálaráðuneytisins segir að ráðuneytið fari nú yfir tilboðin sem þegar hafa borist og snemma í sumar verði tilkynnt hverjir fái að halda áfram í söluferlinu.

Meðal annars er farið yfir það hvort einhver félaganna séu í eigu ríkisstjórna sem gætu „ógnað öryggi Tékklands,“ eins og Dow Jones fréttaveitan orðar það. Sú athugun gæti að sögn fréttaveitunnar komið í veg fyrir að Aeroflot fái að halda áfram í ferlinu en félagið er að hluta til í eigu rússneskra yfirvalda.

Þar fyrir utan þarf Aeroflot hvort eð er að finna sér samstarfsfélaga til að standa að tilboðinu því samkvæmt lögum ESB er erlendum aðilum (þ.e. þeim sem eru fyrir utan ESB) óheimilt að eiga meira en 49% í flugfélagi sem starfrækt er innan sambandsins.

Samkvæmt frétt Dow Jones var fyrirfram búist við tilboðum frá Air France og Aeroflot en fréttaveitan segir hin tvö tilboðin, þ.e. tilboð Odien annars vegar og hópsins í kringum Travel Service hins vegar, hafa komið nokkuð á óvart.

Odien á aftur á móti stærstu ferðaskrifstofu Tékklands, Cedok AS sem er einn stærsti viðskiptavinur bæði Czech Airlines og eins Travel Service.

Czech Airlines á og rekur 51 flugvél, 36 þeirra fyrir meðallanga flugleggi, 12 fyrir stutta leggi og 3 fyrir lengri leggi. Flugflotinn er samansettur af bæði Boeing og Airbus vélum.