Hagnaður Icelandair Group fyrir árið 2009 nam 8,1 milljarði króna fyrir skatta og fjármagnliði (EBITDA), samanborið við 3,1 milljarð árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en tap samstæðunnar eftir skatta og fjármagnsliði nam 10,7 milljörðum króna, samanborið við 7,5 milljarða árið áður.

EBIT hagnaður félagsins nam nam 1,5 milljarði, samanborið við tap upp á 7,4 milljarða árið áður.

Heildarvelta félagsins nam um 80,3 milljörðum króna og jókst um 11% á milli ára. Þar munar mestu um fjölgun farþega en tekjur samstæðunnar af flugfargjöldum og fraktflutningum jukust um rúma 5 milljarða krónaá milli ára. Það gerist þrátt fyrir að tekjur vegna fraktflutninga hafi dregist saman um 200 milljónir á milli ára.

Afskriftir félagsins voru á árinu 6,7 milljarðar króna, sem er lækkun um 3,7 milljarða á milli ára. Þá var fjármagnskostnaður um 6 milljarðar króna, samanborið við 1,9 milljarða króna árið áður

Handbært fé í lok ársins 2009 var 1,9 milljarðar króna, en var 4,1 milljarður árið áður. Þá námu heildareignir 89,1 milljarði í lok árs 2009 og eiginfjárhlutfall var 16,4 % í lok árs 2009, en var 20,1% í lok árs 2008.

Dregur úr launa- og eldsneytiskostnaði

Rekstrarkostnaður félagsins jókst um 3 milljarða á milli ára. Þar munar mestu um aukinn kostnað í leigu á flugvélum en sá kostnaður hækkar um 3,9 milljarða króna. Þá hækkar viðhaldskostnaður flugvéla um 1,3 milljarða króna en annar rekstrarkostnaður eykst um 1 milljarð á milli ára.

Launakostnaður samstæðunnar lækkar hins vegar um 1,6 milljarða á milli ára auk þess sem eldsneytiskostnaður lækkar um 2,4 milljarða króna.

Mikill fjármagnskostnaður

Fjármagnskostnaður félagsins eykst sem fyrr segir verulega á milli ára. Þannig nam fjármagnskostnaðurinn  um 6 milljörðum króna árið 2009, samanborið við tæpa 2 milljarða árið 2008.

Fjármagnstekjur félagsins lækka verulega á milli ára og námu aðeins um 160 milljónum króna á árinu, samanborið við 1,7 milljarða árið áður.

Á móti kemur að annar fjármangskostnaður nam tæpum 6,2 milljörðum króna, samanborið við 3,7 milljarða árið áður. Mestu munar þar um tveggja milljarða króna tap af framvirkum samningum vegna gengisvarna á árinu 2009 en á árinu 2008 var 1,4 milljarða hagnaður tekjufærður vegna hagnaðar af framvirkum samningum. Vaxtagjöld jukust um 500 milljónir króna frá árinu 2008 og námu samtals 4,2 milljörðum árið 2009.