Icelandair Group  gekk í gær frá sölu á um 20% hlut í tékkneska flugfélaginu Travel Service. Eftir viðskiptin á Icelandair Group um 30% hlut í Travel Service.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group en kaupandinn er Canaria Travel sem er eigu í sömu aðila og hafa verið meðeigendur Icelandair Group í Travel Service.

Þá kemur fram að við söluna verður Travel Service hlutdeildarfélag Icelandair Group í stað þess að vera dótturfélag.  Áhrif sölunnar á rekstrarreikning eru neikvæð um  0,9 milljarða króna og eigið fé lækkar um 1,5 milljarða króna. Þá lækkar heildareignir samstæðunnar um 12 milljarða króna.

Salan tryggir aftur á móti að Icelandair Group þarf ekki að koma að fjármögnun á vexti Travel Service.

„Sem íslenskt félag sem vinnur að endurskipulagningu efnahagsreiknings eigum við ekki gott með að styðja við fjármögnun erlendra dótturfélaga okkar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í tilkynningunni.

„Í raun hefur meirihlutaeignaraðild okkar truflað bankaviðskipti Travel Service í Tékklandi.  Travel Service er gott félag og hefur skilað góðum rekstrarárangri en þó er ljóst að rekstrarumhverfi félagsins í vetur verður mjög krefjandi.  Við teljum það heppilegast fyrir bæði félög að selja samstarfsaðilum okkar í Tékklandi 20% hlut þannig að Travel Service verði í meirihlutaeigu þeirra.“