Icelandair Group hefur selt selt dótturfélag sitt SmartLynx í Lettlandi. Kaupendur eru stjórnendur SmartLynx. Gengið var frá sölunni undir lok síðasta árs og er söluandvirðið fært til bókar í síðasta ársreikningi.

Í tilkynningu frá Icelandair Group segir að salan hafi jákvæð áhrif á afkomu Icelandair Group upp á 1,1 milljarð króna þótt áhrifin á eigið fé fyrirtækisins séu óveruleg. Þá eru tekjuskattsáhrifin jákvæð um 700 milljónir króna.

Þá kemur fram að þrátt fyrir söluna sé Icelandair Group enn í ábyrgð fyrir greiðslum á leigu á tveimur Airbus 320-vélum og tveimur Boeing 767-þotum. Fyrri ábyrgðin rennur út í apríl en seinni samningurinn í lok árs.

Staðið hefur til að selja SmartLynx síðan fjárhagslegri endurskipuagningu Icelandair Group lauk, að því er segir í tilkynningunni.

Töpuðu miklu á SmartLynx

SmartLynx hét áður Latcharter. Icelandair Group keypti fyrirtækið árið 2006 en breytti nafninu tveimur árum síðar. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagði í apríl fyrir tveimur árum þegar fyrir lá að flugrekstrarfélagið hefði tapað 10,7 milljörðum króna árið á undan, að erlendar fjárfestingar hafi verið erfiður ljár í þúfu. Icelandair Group tapaði 10,7 milljörðum króna árið 2009 eftir skatta og fjármagnsliði. Þar af voru 4,2 milljarðar króna gjaldfærðir vegna taprekstrar, afskrifta viðskiptakrafna og óefnislegra eigna SmartLynx. Ákveðið var því að selja félagið.