Vodafone og Icelandair Group hafa samið um, að Vodafone annist alla fjarskiptaþjónustu fyrir Icelandair næstu þrjú árin.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone en þjónustusamningurinn var gerður í framhaldi af útboði sem Icelandair efndi til og stóru símafélögin tóku þátt í.

Gengið var til samninga við Vodafone á grundvelli tilboðsins sem sent var inn og því ferli er nú lokið með undirritun þjónustusamnings. Gildistími samningsins er þrjú ár.

Í tilkynningunni kemur fram að Icelandair hefur verið einn af stærstu viðskiptavinum Vodafone undanfarin ár og samstarf fyrirtækjanna hefur gengið mjög vel. Á sínum tíma var tilfærslan á allri fjarskiptaþjónustu Icelandair til Vodafone ein sú umfangsmesta sem fyrirtækið hafði unnið að, en hún gekk í alla staði vel fyrir sig.

„Það eru bestu meðmælin sem við getum fengið, að stórir og kröfuharðir viðskiptavinir eins og Icelandair velji Vodafone, segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone í tilkynningunni.

„Góð fjarskiptaþjónusta og lágur kostnaður skiptir Icelandair gríðarlega miklu máli og það er er gæðastimpill fyrir okkar starfsfólk að þjónustusamningurinn við Icelandair hafi verið endurnýjaður.“