Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group, hefur afsalað sér launum fyrir setu í stjórn félagsins og renna þau í staðinn til Vildarbarna.

Þetta kemur fram í ársreikningi Icelandair Group sem kynntur var í gær. Eins og áður hefur komið fram nam tap samstæðunnar um 10,7 milljörðum króna á síðasta ár og munar þar mestu um mikinn fjármagnkostnað.

Sigurður Helgason kom inn í stjórn félagsins í ágúst á síðasta ári. Laun hans sem stjórnaformanns  áttu að nema 1,6 milljón króna fyrir árið en eins og áður segir hefur hann afsalað sér laununum. Stjórn félagsins ákvað því að greiða þá upphæð til Vildarbarna Icelandair.

Alls námu laun til stjórnarmanna um 39,9 milljónum króna. Þar af námu laun til fyrri stjórnar, sem starfaði fram á miðjan ágúst, um 13,8 milljónum króna. Þar af námu laun til Gunnlaugs Sigmundssonar, fyrrv. stjórnarformanns, 4,9 milljónum króna og Einars Sveinssonar 2,3 milljónum króna.

Af núverandi stjórnarmeðlimum fékk Pétur J. Eiríksson um 19,1 milljón króna á árinu. Rétt er að staka fram að hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri Icelandair Cargo þannig að inn í þessari tölu eru laun vegna starfsloka hans. Þá fékk Finnur Reyr Stefánsson 3 milljónir króna, Jón Ármann Guðjónsson og Katrín Olga Jóhannesdóttir sitthvorar 800 þúsund krónurnar.

Þá var Tómas Kristjánsson með um 500 þúsund krónur á árinu sem varastjórnarmaður, Kristín Einarsdóttir með 200 þúsund og Magnús Magnússon með 100 þúsund krónur, öll fyrir setu í varastjórn.

Stjórnarlaun félagsins eru nú þannig að stjórnarmenn fá 160 þúsund krónur á mánuði en formaður stjórnar 320 þúsund krónu. Þá fá varamenn stjórnar 80 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund. Fyrir aðalfundi félagsins, sem haldinn verður þann 21. maí nk.  liggur fyrir tillaga um að stjórnarlaun verði óbreytt.