Icelandair Group-samstæðan sparar líklega um 1,6 milljarða króna á ári við það að fækka stöðugildum um 190 hjá flugfélaginu Icelandair.

Launakostnaður dregst því saman um 132 milljónir á mánuði eða  nálægt 400 milljónum á fjórðungi, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Í tölunum er einungis miðað við uppsagnir flugmanna og flugfreyja hjá Icelandair.

Í útreikningunum er heldur ekki gert ráð fyrir öðrum uppsögnum innan samstæðunnar, s.s. hjá IGS.

Ef litið er til samstæðunnar fækkar stöðugildum í 2.210 úr 2.400, ef miðað er við meðalstöðugildi síðasta ársfjórðungs, að því er fram kemur í uppgjörsgögnum. Laun og launatengdur kostnaður var um fimm milljarðar króna á síðasta ársfjórðungi. Það þýðir að kostnaður við hvern starfsmann hafi numið um 695 þúsund krónum að meðaltali á mánuði.

Launakostnaður lækkar því úr 5 milljörðum niður í um 4,6 milljarða króna á fjórðung. Þá er ekki enn farið að líta til sparnaðar sem hlýst af því að draga saman seglin sem þessari fólksfækkun nemur, þ.e. eldsneytiskostnaður og fleira.

Um helmingur af stöðugildum samstæðunnar eru hjá flugfélaginu Icelandair eða um 1.040.