Icelandair Group hefur skrifað undir samning um samstarf við Startup Iceland. Samningurinn felur í sér fjárhagslegan stuðning Icelandair Group við Startup Iceland ráðstefnuna 2013.

Startup Iceland ráðstefnan fer fram dagana 1. – 4. júní næstkomandi í Háskólanum í Reykjavík og Hörpu. Í tilkynningu kemur fram að á meðal fyrirlesara eru Jason Mendelson og Ryan Mclntyre frá fjárfestingasjóðnum Foundry Group í Bandaríkjunum sem hefur fjárfest nær eingöngu í tæknifyrirtæjum á borð við Zynga, Fitbit, Rover.com, Makerbot og Yesware.

Einnig mun Brad Burnham halda fyrirlestur en hann er annar stofnenda Union Square Ventures sem staðsettir er í New York, en í eignasafni hans eru m.a. Duolingo, Etsy, Foursquare, Kickstarter og Twitter.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningunni að Startup Iceland ráðstefnan sé dýrmæt viðbót í safn árlegra stórviðburða á Íslandi. Fyrirlesarar á ráðstefnunni séu þungavigtarmenn í bandarísku viðskiptalífi og það sé mikilvægt að vekja áhuga þeirra á Íslandi.