Tap Icelandair Group eftir skatta nam um 1,9 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við rúma 3,6 milljarða á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir utan skatta og fjármagnsliði nam tæpum 180 milljónum króna, samanborið við tæpar 60 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Icelandair Group. Sem kunnugt er sendi félagið frá sér ársuppgjör vegna ársins 2009 í síðustu viku en á síðasta ári tapaði félagið um 10,7 milljörðum króna eftir skatta og fjármagnsliði. Stærstan hluta þess taps má rekja til hás fjármagnskostnaðar.

Heildarvelta Icelandair Group á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var tæpir 16,3 milljarðar króna, samanborið við 14 milljarða árið áður og jókst því um 16% á milli ára.

Tap af áframhaldandi starfsemi nam 1,5 milljarði króna á  tímabilinu, samanborið við 1,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Þá námu afskriftir félagsins á fyrsta ársfjórðungi 1,3 milljörðum króna, samanborið við 1,1 milljarð á sama tíma í fyrra.

Fjármagnskostnaður var 736 milljónir króna samanborið við 555 milljónir króna  á sama tímabili í fyrra. Handbært fé í lok fyrsta ársfjórðungs 2010 var 4,1 milljarðar króna, en var  1,9 milljarður í ársbyrjun. Heildareignir námu 93,6 milljörðum í lok fyrsta ársfjórðungs 2010 og  eiginfjárhlutfall var 14%.