Gert er ráð fyrir að tap Icelandair Group vegna eldgossins í Eyjafjallajökli vegna takmarkaðar flugumferðar til Evrópu nemi samtals um 100 milljónum króna á dag undanfarna daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar en eins og gefur að skilja snertir ástandið flest fyrirtæki innan samstæðu Icelandair Group en þó sérstakleg þau sem eru í alþjóðlegum flugrekstri, þ.e. Icelandair, Icelandair Cargo og Bluebird auk þess sem áhrifin eru nokkur á Iceland Travel og Vita.

„Fram kemur að þrátt fyrir talsverða röskun á flugi til Evrópu hefur Icelandair bætt við flugferðum þegar færi hefur gefist til að tryggja að viðskiptavinir verði fyrir sem minnstum óþægindum vegna eldgossins,“ segir í tilkynningunni.

Flogið var til Glasgow og Þrándheims með á annað þúsund farþega og nú í morgun hófst flug til fleiri borga á Norðurlöndunum.  Jafnframt hefur fraktflutningum verið haldið uppi eins og mögulegt hefur verið.

Þá kemur fram að miðað við nýjustu vindaspár er gert ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur verði opinn næstu daga. Engin röskun hefur orðið á flugi Icelandair til Bandaríkjanna og áætlanir gera ráð fyrir að Icelandair muni áfram halda uppi loftbrú á milli Evrópu og Bandaríkjanna í vikunni sem er að hefjast.