Framtakssjóður Íslands er á ný orðinn stærsti einstaki hluthafinn í Icelandair Group en sjóðurinn á nú sem fyrr 19.01% hlut í félaginu. Sem kunnugt er seldi Íslandsbanki tæplega 10% hlut í félaginu fyrir síðustu helgi en Íslandsbanki var fyrir söluna stærsti einstaki hluthafinn í félaginu með um 20% hlut. Íslandsbanki er nú þriðji stærsti hluthafi félagsins.

Sem kunnugt er var Framtakssjóðurinn þar á undan stærsti hluthafinn. Sjóðurinn átti um 29% hlut í félaginu en seldi 10% hlut í nóvember sl. sem að mestu var keyptur af öðrum lífeyrissjóðum (og eigendum Framtakssjóðsins). Eftir það varð Íslandsbanki stærsti hluthafinn.

Það hefur svo sem legið fyrir lengi að Íslandsbanki, sem er helsti viðskiptabanki Icelandair Group, væri ekki langtímaeigandi í félaginu en skv. opinberum og óopinberum ummælum forsvarsmanna Íslandsbanka stóð til að minnka hlut bankans í Icelandair Group með tímanum. Íslandsbanki sat uppi með hlutinn eftir fjárhagslega endurskipulagningu félagsins árið 2010.

Sem fyrr segir juku margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins við sinn hlut í nóvember sl. þegar Framtakssjóðurinn seldi 10% hlut í félaginu. Lífeyrissjóður verslunarmanna jók við sig um 2,3% prósentuhlut og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) jók sinn hlut um 1,4 prósentustig. Þá jók Sameinaði lífeyrissjóðurinn sinn hlut um rúmt prósentustig auk þess sem tveir nýir sjóðir komu inn á lista yfir 20 stærstu, Gildi lífeyrissjóður og Söfnunarsjóður lífeyrissréttinda. Þá bættu Stafir lífeyrissjóður lítillega við sig sem og Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna.

Allir fyrrgreindir aðilar eru meðal eiganda Framtakssjóðsins en samanlagt bættu þessir aðilar við sig 7% hlut í félaginu í nóvember sl., eða meginþorra þess hluta sem boðinn var til sölu þá.

Lítil aukning lífeyrissjóða

Lífeyrissjóðirnir voru þó ekki svo umsvifamiklir í viðskiptunum í síðustu viku. Eignarhlutur Lífeyrissjóðs verslunarmanna er óbreyttur frá því sem áður var sem og eignarhlutur LSR. Hins vegar er starfsemi LSR skipt upp í nokkra hluta. Réttar væri að segja að eignarhlutur Lífeyrissjóða Bankastræti 7 væri óbreyttur en hins vegar kemur LSR A-deild nú inn á listann yfir 20 stærstu með tæpl. 1,3% hlut í félaginu.

Þá hefur fjárfestingasjóðurinn Stefnir ÍS 5 aukið hlut sinn um 1% og Stefnir ÍS 15 sinn hlut um rúmlega 0,4%.

Fjórir nýir aðilar koma inn á listann yfir 20 stærstu eigendur félagsins, MP Banki, LSR A-deild, ARIO hedge og fjárfestingasjóðurinn Gamma: EQ1.

Hér að neðan má sjá lista yfir 20 stærstu eigendur félagsins og tölur yfir eignarhlut:

  1. Framtakssjóður Íslands  19,01%
  2. Lífeyrissjóður verslunarmanna  14,36%
  3. Íslandsbanki hf.  12,07%
  4. Lífeyrissjóðir Bankastræti 7  7,72%
  5. Stefnir - ÍS 5  4,96%
  6. Stefnir - ÍS 15  4,35%
  7. Stafir lífeyrissjóður  2,71%
  8. Úrvalsbréf Landsbankans  2,09%
  9. Sameinaði lífeyrissjóðurinn  2,04%
  10. Íslandssjóðir hf.  1,93%
  11. MP banki hf.  1,89%
  12. SPB hf.  1,87%
  13. Gildi lífeyrissjóður  1,37%
  14. Lífeyrissjóður starfsm. ríkisins A-deild  1,28%
  15. Söfnunarsjóðður lífeyrisréttinda  1,03%
  16. Eftirlaunasj. atvinnuflugmanna  0,83%
  17. Auður Capital safnreikningur  0,82%
  18. ARIO hedge  0,81%
  19. Akkur SI  0,78%
  20. GAMMA: EQ1  0,68%