Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,89% og heildarvísitalan hækkaði um 1,25% í 4,8 milljarða króna viðskiptum á hlutabréfamarkaði í dag. Mest hækkaði gengi bréfa Icelandair Group, eða um 11% í 847,7 milljóna króna viðskiptum, en félagið hækkaði í morgun EBITDA spá sína fyrir árið 2017 úr 150-160 milljónum í 165-175 milljónir Bandaríkjadali.

Mest velta var hins vegar með bréf Marel, eða tæplega 2.043 milljónir. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 1,73%. Lítil breyting varð á gengi bréfa annarra félaga á hlutabréfamarkaði.

Á skuldabréfamarkaði nam velta aðeins 794,7 milljónum króna og varð lítil breyting á óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum. Þannig hækkaði aðalvísitala skuldabréfa um 0,1%.

Á First North hlutabréfamarkaði nam heildarvelta 27,9 milljónum króna.