*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 28. október 2019 17:04

Icelandair hækkaði um 11%

Hlutabréfaverð Icelandair Group hækkaði hressilega í viðskiptum dagsins eftir að félagið birti jákvæða afkomuviðvörun í gærkvöldi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, OMXI10, hækkaði um 1,55% í tæplega 2,1 milljarða viðskiptum dagsins og stendur nú í 1630,3 stigum. Alls hækkaði hlutabréfaverð 8 félaga í dag, 6 þeirra stóðu í stað á meðan gengi 5 þeirra lækkaði. 

Mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair Group sem hækkuðu um 11,09% í 101 milljóna viðskiptum en hlutabréfaverðið hafði hækkað um tæplega 18% í fyrstu viðskiptum dagsins. Hækkunin kom í kjölfarið á jákvæðri afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér í gær þar sem afkomuspá félagsins var hækkuð úr bilinu 70-90 milljón dollara rekstrartapi (EBIT) í 35-55 milljóna rekstrartap. Var þetta í fyrsta sinn í um 2 ár sem Icelandair hækkar afkomuspá sína. 

Þá hækkuðu bréf Skeljungs hækkuðu um 1,37% í 153 milljóna króna viðskiptum auk þess sem bréf Arion banka hækkuðu um 0,98% í 222 milljóna viðskiptum. 

Bréf Eikar fasteignafélags lækkuðu um 0,65% í 84 milljóna viðskiptum og þá lækkuðu bréf Kviku banka um 0,64% í 21 milljóna viðskiptum

Mest velta var með bréf Marel sem hækkuðu um 2,11% í 849 milljóna viðskiptum. Flest viðskipti voru hins vegar með bréf Icelandair Group eða 40 talsins á meðan næst flest voru með bréf Marel eða 19. 

Stikkorð: Marel Icelandair