Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,70% í 4 milljarða króna heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag. Fór hún upp í 2.128,16 stig við hækkunina. Vísitalan hefur ekki endað hærra frá því að vísitalan var endurreist eftir hrun.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest, eða um 7,07% í 247 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins í 10,00 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Regins, sem hækkuðu um 4,67%, upp í 23,55 krónur, í 240 milljóna króna viðskiptum.

Gengi bréfa Arion banka lækkaði hins vegar mest, eða um 0,50% í 67 milljóna króna viðskiptum, og nam gengi bréfanna 79,00 krónum við lok viðskipta dagsins. Gengi annarra félaga í Kauphöllinni stóð í stað eða hækkaði í viðskiptum dagsins.

Mestu viðskiptin voru líkt og oft áður með bréf Marels, eða fyrir rúmlega einn milljarð króna, og hækkuðu þau um 0,51%, upp í 586,00 krónur í viðskiptunum. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Reita, eða fyrir 564 milljónir króna,  en bréf félagsins hækkuðu um 2,71%, upp í 87,10 krónur.