Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi, lækkaði um 0,39%, í 2 milljarða heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag.

Fjögur félög lækkuðu í virði í dag, þar af Brim mest, eða um 1,76%, niður í 37,73 krónur, í 179 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 1,19% í 191 milljóna króna viðskiptum, og fæst nú hvert bréf félagsins á 580 krónur.

Þriðja mesta lækkunin var svo á bréfum Símans, eða um 0,65%, en það var jafnframt í mestu viðskiptunum með einstakt félag eða fyrir 347 milljónir króna, og fór gengi bréfanna niður í 4,64 krónur. Vís lækkaði síðan um 0,48%, niður í 10,27 krónur, í þó ekki nema 39 milljóna króna viðskiptum.

Mesta hækkunin var á gengi bréfa Icelandair, eða um 4,07%, í 6,65 krónur, í 141 milljóna króna viðskiptum.

Sýn hækkaði næst mest, eða um 2,39%, í jafnframt næstmestu viðskiptunum og var lokagengi bréfa félagsins 25,70 krónur. Í dag gerðu þau Sigurður Bollason og Nanna Ásgrímsdóttir framvirka samninga um kaup á 17,9 milljón hlutum, eða 6,04% hlut í félaginu, sem miðað við það verð er að verðmæti 460 milljóna króna.

Loks hækkuðu bréf Arion banka um 1,95%, í 299 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með eitt félag, og fæst nú hvert bréf bankans á 9,75 krónur.

Pundið lækkar mest gagnvart krónu

Gengi breska pundsins lækkaði um 0,21% gagnvart íslensku krónunni, og fæst það nú á 159,35 krónur, einnig lækkaði Bandaríkjadalur, eða um 0,12% og fæst hann nú á 123,77 krónur.

Evran stóð í stað í 137,64 krónur, en svissneski frankinn hækkaði mest gagnvart krónunni af helstu viðskiptamyntum krónunnar, eða um 0,19% og fæst hann nú á 124,93 krónur.