Tíðindi um breytt fyrirkomulag skimunar og gildi bólusetningarvottorða héldu áfram að hafa áhrif á gengi bréfa Icelandair. Annað daginn í röð hækkaði gengi bréfanna um í kringum sex prósent í viðskiptum dagsins. Meira en helmingur félaga á aðalmarkaði hækkaði í viðskiptum dagsins.

Sem fyrr segir hækkaði flugfélagið Icelandair mest eða um 6,01%. Félögin tvö sem hyggja á sameiningu, Kvika og TM, komu þar á eftir, fyrrnefnda félagið hækkaði um 2,65% og hið síðarnefnda um 2,23%. Fjögur félög hækkuðu um á bilinu 1,3% til 1,8%. Þau voru VÍS, Síminn, Hagar og Festir.

Hin þrjú félögin sem hækkuðu voru Reitir, Sýn og Eik. Fimm félög stóðu í stað en það voru Arion, Reginn, Skeljungur, Iceland Seafood og Origo. Engin velta var skráð með bréf síðastnefndu tveggja félaganna. Á hinum endanum lækkuðu fjögur félög, Sjóvá um 0,17%, Eimskip um 0,7%, Brim um 1,47% og Marel um tæp tvö prósent. OMXI10 vísitalan lækkaði um 0,53% í viðskiptum dagsins.

Veltan í viðskiptum dagsins nam rétt rúmum 4,8 milljörðum króna. Mest var veltan með bankana tvo, viðskipti í Kviku námu 808 milljónum króna og í Arion 844 milljónum króna. Þar á eftir fylgdu VÍS og Festi með um 590 milljón króna veltu og þá Síminn með 387 milljónir króna. Velta með bréf í Marel var 342 milljónir króna.