Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9% í 2,4 milljarða króna veltu hlutabréfamarkaðar Kauphallarinnar í dag. Síminn lækkaði mest allra félaga eða um 1,4% í 165 milljóna króna viðskiptum en gengi félagsins stóð í 9,92 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Fjarskiptafélagið hefur engu að síður hækkað um ríflega 24% á árinu.

Icelandair hækkaði um 0,7% í 111 milljóna króna veltu en aðalfundur flugfélagsins hófst klukkan 16 í dag. Þar mun fara fram stjórnarkjör en alls hafa átta boðið sig fram í stjórnina sem skipar fimm stjórnarmenn.

Sjá einnig: Stefnir í spennuþrunginn fund

Mesta veltan var með hlutabréf Marel sem lækkuðu um 1,1% í 590 milljóna króna viðskiptum. Gengi Marel hefur nú lækkað um tæp 6,4% á þremur vikum.

Næst mesta veltan var með bréf Arion banka sem lækkuðu um  0,9% í 440 milljóna króna viðskiptum. Lífeyrissjóðurinn Gildi, sem varð stærsti hluthafi bankans í vikunni, sendi frá sér tilkynningu í dag vegna tillögu stjórnar um starfskjarastefnu sem verður lögð fram á aðalfundi félagsins næsta þriðjudag.

„Laun stjórnenda bankans virðast að mati sjóðsins, þegar tillit er tekið til möguleika á árangurstengdum greiðslum, kaupréttum og áskriftarréttindum, hærri en það sem gengur og gerist hjá öðrum íslenskum bönkum og skráðum fyrirtækjum sem starfa á íslenskum markaði,“ kom fram í tilkynningu Gildi.