Gengi bréfa Icelandair Group hefur hækkað um 3,44% í Kauphöll Nasdaq OMX Iceland í dag. Verð á hlut er 37,6 kr við skrif þessarar fréttar, og viðskiptavelta með bréfin nemur rúmlega 1,8 milljarði króna.

Þess ber þá einnig að geta að gengi bréfa Icelandair Group hefur hækkað um 62% á ársbili. Bera má hækkunina saman við hækkun Úrvalsvísitölunnar, sem hækkaði um 43,4% á liðnu ári.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins skýrist hækkunin einna helst af sílækkandi olíuverði, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í dag er verð á Brent hráolíu komið niður fyrir 35 dali á tunnu. Það hefur ekki verið lægra síðan 2004.

Auk þess er staðreynd að íslenskur verðbréfamarkaður hefur einfaldlega verið sterkur og virkur - þrátt fyrir niðursveiflur og hamfarir í heimsmarkaðnum, sérstaklega í þeim asíska.