Hlutabréfaverð í Icelandair hefur hækkað um 10,5% í morgun í yfir 250 milljón króna viðskiptum.  Nú stendur verð á hlut í 9,5 krónum en var 8,6 við lokun markaða í gær. Þá hafa hlutabréf í félaginu hlotið athugunarmerkingu hjá Kauphöll Íslands vegna viðræðna félagsins um kaup á Wow air, sem greint var frá í gærkvöldi. Forsvarsmenn félaganna hafa sagt að þeir hyggist ljúka viðræðunum á mánudaginn.

Hækkun hlutabréfaverðsins fór vel yfir 20% við opnun markaða en hefur nú að hluta til gengið til baka.

Hlutabréfaverð í Icelandair er enn nokkuð lægra en það var áður en Icelandair greindi frá ársuppgjöri sínu fyrir árið 2018, þann 7. febrúar en þá stóð gengi á hlut í 10,31 krónu.

Verð allra annarra hlutabréfa sem viðskipti hafa verið með það sem af er degi hafa hins vegar lækkað.