*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 25. mars 2021 16:22

Icelandair hækkar um 5,8%

Þrettán af nítján félögum Kauphallarinnar hækkuðu í viðskiptum dagsins og úrvalsvísitalan hækkaði um 1,1%.

Ritstjórn

Icelandair hækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar í dag eða um 5,8% í 84 milljóna króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins vann því upp að stórum hluta 6,5% lækkun gærdagsins en stjórnvöld kynntu hertari sóttvarnaraðgerðir í gær.  

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,1% í 2,1 milljarðs króna veltu hlutabréfamarkaðs Kauphallarinnar. Þrettán af nítján félögum markaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. 

Fasteignafélögin þrjú sem eru skráð í Kauphöllina hækkuðu öll í dag. Af þeim hækkaði Reginn mest eða um 3,2% í 55 milljóna króna veltu. Reitir hækkuðu um 2,4% í 140 milljóna króna veltu og Eik hækkaði um 0,9%. 

Mesta veltan á hlutabréfum Arion banka eða um 547 milljónir króna. Hlutabréfaverð bankans stóð í 114 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar, óbreytt frá gærdeginum. Næst mesta veltan var með bréf Festi sem hækkuðu um tæp tvö prósent í 401 milljón króna veltu.