*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 18. júní 2021 17:00

Icelandair hækkar um 6%

Eimskip hækkaði næst mest eða um 5,2% þrátt fyrir 1,5 milljarða króna sekt fyrir samkeppnislagabrot.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréf Icelandair voru á flugi í dag og hækkuðu um 5,9% í 289 milljóna króna veltu og enduðu í 1,44 krónum á hlut en bréfin hafa lækkað um rúm 17% það sem af er ári.

Eimskip hækkaði næst mest, um 5,2%, í 207 milljóna króna veltu og enduðu bréf félagsins í 302 krónum á hlut. Fyrr í dag fjallaði Viðskiptablaðið um miklar hækkanir Eimskips þrátt fyrir 1,5 milljarða króna sekt sem er jafnframt hæsta sekt sem hefur verið lögð á fyrirtæki fyrir samkeppnislagabrot.  

Síldarvinnslan lækkaði mest allra skráðra félaga í dag eða um 1,6% í 57 milljóna krónu veltu og nálgast óðfluga útboðsgengið. Þá lækkaði Festi um 1,25% í 81 milljóna króna veltu. Líkt og oft áður var mesta veltan með bréf Arion banka en bankinn lækkaði um tæp 0,2% í 306 milljóna krónu veltu.