Verð á hlutabréfum í Icelandair hefur hækkað um 6,81% í 228 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni það sem af er degi.

Olíufélögin hafa lækkað nokkuð í Kauphöllinni í dag. Skeljungur hefur lækkað um 2,91% í 124 milljóna króna viðskiptum og N1 hefur lækkað um 2,85% í 304 milljóna króna viðskiptum.

Önnur félög hafa einnig lækkað, Hagar lækkuðu um 1,63% í 296 milljóna króna viðskiptum, Síminn lækkaði um 1,93% í 123 milljóna króna viðskiptum og Reitir lækkuðu um 1,56% í 107 milljóna króna viðskiptum.

Icelandair tilkynnti um breytingar á leiðarkerfi sínu í gær, þá bíða margir eftir fréttum af skuldabréfaútboði WOW air auk þess sem fjárlög fyrir 2019 voru kynnt í morgun. Þá hefur krónan veikst nokkuð að undanförnu.