Fjárfestar hafa tekið vel í uppgjör Icelandair fyrir þriðja ársfjórðung en bréf félagsins hafa hækkað um 8,85% það sem af er degi í um 45 milljóna viðskiptum. Félagið hagnaðist um 61,4 milljónir dollara á fjórðungnum og dróst hagnaður þess saman um rúmlega hálfa milljón dollara þrátt fyrir kyrrsetningu MAX vélanna.

Gengi bréfa félagsins hefur nú hækkað um 28% í vikunni en Icelandair sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun á sunnudagskvöldið þar sem fram kom að afkomuspá félagsins hefði verið hækkuð um 35 milljónir dollara. Áður hafði verið gert ráð fyrir rekstrartapi (EBIT) upp á 70-90 milljónir dollara en í tilkynningunni á mánudag var afkomuspáin færð í 35-55 milljónir dollara.

Í afkomutilkynningunni frá því í gær var bilið svo þrengt í 35-45 milljónir dollara. Þá var einnig greint frá því að félagið hefði náð öðru samkomulagi við Boeing um bætur vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Í afkomuviðvörunni frá því á sunnudag kom fram að seinkun áætlaðrar endurkomu MAX véla félagsins hefði valdið því að kostnaður við innleiðingu þeirra færðist yfir á næsta ár en fram kom í máli stjórnenda Icelandair á uppgjörsfundi í morgun að upphæðin væri undir 10 milljónum dollara.

Alls hafa 16 félög af 20 hækkað í byrjun dagsins. Gengi bréf Sjóvá hefur hækkað um 4,38% í 69 milljóna viðskiptum en félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í gær, VÍS um 3,31% í 50 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf Símans hafa hækkað um 2,11 í 128 milljóna viðskiptum.

Þá hafa fjárfestar einnig tekið vel í uppgjör Eikar og Origo sem birt voru í gær. Gengi bréfa Eikar hefur hækkað um 2,43% í 36 milljóna viðskipum og bréf Origo um 2,16% í 35 milljóna viðskiptum.