Icelandair hættir við sumarflug til níu flugvalla meðal annars til borganna Barcelona á Spáni og Manchester á Englandi. Frá þessu er greint á vef Túrista .

Fyrir um hálfum mánuði síðan tók félagið úr sölu allar ferðir til Philadelphia og Portland í Bandaríkjunum og kanadísku borganna Montreal, Edmonton og Vancouver. Einnig Billund í Danmörku, Bergen í Noregi og Gatwick flugvallar í London.

Samkvæmt heimildum Túrista liggur fyrir að ekkert verði af ferðum Icelandair til Anchorage í Alaska. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Túrista að þessi breyting eigi aðeins við um núverandi sumaráætlun en ekki komandi vetraráætlun. En Icelandair hefur til að mynda flogið til Gatwick allt árið um kring og stóran hluta ársins til Portland, Vancouver, Edmonton og Bergen.

Með þessum breytingum þá falla niður allar flugsamgöngur frá Íslandi til flestra þessara borga því Icelandair var eitt um ferðirnar til þeirra allra ef London og Manchester eru frátaldar.

Það leit að vísu út fyrir að félagið fengi samkeppni í Íslandsflugi frá Philadelphia í sumar en American Airlines hætti við flug sitt hingað frá borginni í sumar. Og ekkert verður heldur að ferðum Air Canada hingað frá Montreal og Toronto í ár.