Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun mun Icelandair, dótturfélag Icelandair Group, hefja beint áætlunarflug fjórum sinnum í viku milli Íslands og Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna þann 22. júlí næstkomandi.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að flugleiðin fellur inn í leiðakerfi sem byggir á legu landsins í beinni flugleið milli Norður- Ameríku og Norður-Evrópu og hér sé um að ræða viðskiptatækifæri sem gefst vegna breytinga á alþjóðamörkuðum.

Þá munu hagkvæmar Boeing 757 þotur Icelandair henta einstaklega vel í flugið samkvæmt tilkynningunni auk þess sem verkefni skapar gjaldeyristekjur, allt að eitt hundrað atvinnutækifæra og eflir ferðaþjónustuna.

„Icelandair rekur öflugt leiðakerfi og velgengi þess byggir á stöðugri útsjónarsemi, þróun og aðhaldi. Við brotthvarf SAS af markaðinum milli Skandinavíu og Seattle í sumar myndast tækifæri fyrir Icelandair, því vegna staðsetningar landsins getum við nýtt Boeing 757 þotur í flugið, en þær eru mun hagkvæmari en þær breiðþotur sem jafnan fljúga milli Seattle og Evrópu,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

Þá kemur fram að með millilendingu hér á landi dreifast farþegar til og frá fjölmörgum Evrópuborgum, líkt og í öðru tengiflugi félagsins.

„Samkeppnishæfni Icelandair á leiðinni milli Seattle og Evrópu er því góð og við getum boðið 3-4 klst. styttri flugtíma en aðrir geta frá höfuðborgum Norðurlandanna og fleiri stöðum,“ segir Birkir.

„ Jafnframt erum við í samstarfi við Alaska Airlines, sem er stærsta flugfélagið í Seattle, og því bjóðum við samdægurs góðar áframtengingar til borga eins og Las Vegas, Los Angeles, San Francisco og fleiri.“

Þá kemur fram að við núverandi efnahagsaðstæður eru áherslurnar á að fá ferðamenn til landsins og á þátttöku í alþjóðafluginu.

Þá segir Birkir Hólm að farþegarnir í Seattlefluginu komi langflestir af alþjóðamarkaði.

„Við gerum ráð fyrir að aðeins um 7% farþeganna verði Íslendingar, en um 93% verða útlendingar - að hluta ferðamenn til Íslands og að hluta fólk á ferð milli heimsálfa,“ segir Birkir í tilkynningunni.

Flogið verður fjórum sinnum í viku, frá Íslandi á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og laugardögum, brottför kl 17.00 og koma til Seattle kl 16.45.

Frá Seattle verður flogið á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum, brottför kl 15:30 og koma til Íslands kl. 06:45