Icelandair hagnaðist um 101,3 milljónir dollara, eða sem samsvarar 10,8 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi. Hagnaðurinn dregst lítillega saman milli ára, var 102,8 milljónir dollara á sama tímabili fyrir ári, eða 10,9 milljarðar króna á gengi dagsins í dag.

Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi jukust um 10% milli ára og námu 536,0 milljónum dollara. Farþegatekjur voru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og sætanýting var 86,2% jókst um 0,6 prósentustig frá fyrra ári.

Handbært fé og skammtímaverðbréf nema 264,1 milljónir dollara og nettó vaxtaberandi skuldir eru 19,9 milljónir dollara.

Icelandair tilkynntu fyrr í vikunni að EBITDA spá þeirra fyrir árið myndi hækka úr 150-160 milljónum dollara í 165-175 milljónir dollara. Í kjölfarið rauk hlutabréfaverð í Icelandair upp.

Afkoman betri en gert ráð fyrir

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group er ánægður með niðurstöðuna. „Reksturinn á þriðja ársfjórðungi gekk vel. Afkoman er betri en gert var ráð fyrir og eru helstu skýringarnar hærri farþegatekjur og hagstæð gengisþróun sem vegur þyngra en neikvæð þróun olíuverðs. Þá eru hagræðingaraðgerðir byrjaðar að skila árangri. Afkoma af leiguflugstarfsemi og fraktflutningum var einnig umfram væntingar. Farþegar félagsins í millilandaflugi voru tæplega 1,5 milljónir og hefur félagið aldrei flutt fleiri farþega á einum ársfjórðungi. Í ljósi bættrar afkomu á þriðja ársfjórðungi og betra rekstrarútlits á síðustu mánuðum ársins hækkum við afkomuspá okkar fyrir árið í 165-175 milljónir dollara,“ er haft eftir Björgólfi í tilkynningu.

Þá segir Björgólfur fyrirtækið hafa fengið góð viðbrögð við nýja fargjaldavalkostinum Economy Light, sem Icelandair hóf sölu á nýverið. „Við gerum ráð fyrir áframhaldandi vexti á næsta ári í samræmi við stefnu okkar um arðbæran innri vöxt félagsins og flugáætlun Icelandair fyrir árið 2018 verður um 11% umfangsmeiri en á þessu ári. Horfur í flugrekstri félagsins eru óbreyttar. Samkeppni er áfram mikil á N-Atlantshafinu og er gert ráð fyrir áframhaldandi þrýstingi á meðalfargjöld. Félagið hefur hins vegar sýnt að með sveigjanleika og fjárhagslegan styrk að vopni er það vel í stakk búið að takast á við sveiflur í rekstrarumhverfinu,“ segir í tilkynningunni.