Hástökkvari dagsins í Kauphöllinni var Icelandair, en gengi bréfa flugfélagsins hækkaði um tæp 3% í viðskiptum dagsins í 430 milljón króna viðskiptum. Hlutabréf Iceland Seafood hækkuðu næst mest, um 2,56% í óverulegum viðskiptum.

Hlutabréf evrópskra flugfélaga hækkuðu nokkuð í dag. IAG og Wizz Air hækkuðu bæði um 11%, en samkvæmt Financial Times eru fjárfestar að veðja á að Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar muni ekki valda eins miklum truflunum á ferðalög eins og óttast var í fyrstu.

Brim lækkaði mest allra félaga á markaði, um 2,56%. Stóru bankarnir á markaði, Arion banki og Íslandsbanki, lækkuðu báðir umfram 2%. Mikil velta var með bréf Arion banka en viðskipti með bréfin námu um 1,4 milljörðum króna. Auk þess var nokkur velta með bréf Festi og Marel og hækkaði gengi bréfa félaganna umfram 1%.

Heildarvelta viðskipta dagsins nam 5,1 milljörðum króna og hækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 0,3%. Stendur gengi vísitölunnar nú í 3.417,84 stigum.

Á First North hækkaði gengi Play um 1,69% í 200 milljón króna viðskiptum og gengi Kaldalóns um 1% í 74 milljón króna viðskiptum. Gengi Hampiðjunnar lækkaði um rúmlega 5% í tæplega 700 þúsund króna viðskiptum.