Það var að mestu tíðindalítið á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag en velta dagsins nam rétt rúmlega 2,5 milljarði króna. Átta félög hækkuðu í viðskiptum dagsins og fimm lækkuðu. OMXI10 vísitalan hækkaði síðan um 0,72%.

Hástökkvari dagsins var Icelandair en virði hlutarins í félaginu hækkaði um 4,32%. Þar á eftir fylgdi VÍS, sem hækkaði um 1,82%, og Kvika en hækkun bankans nam 1,65%. Marel nálgast 900 króna múrinn á ný, virði bréfanna hækkaði um 1,24% og stendur hluturinn nú í 897 krónum.

Á hinum endanum lækkuðu fasteignafélöginn Reginn og Reitir mest, fyrrnefnda félagið um 1,77% en hið síðarnefnda um 1,29%. Velta með bréf félaganna var svipuð eða um 85 milljónir króna. Origo lækkaði um 0,57%, viðskipti með bréf í félaginu námu fimm milljónum, og þá lækkuðu Arion og Sjóvá um annars vegar 0,40% í tilfelli bankans en 0,30% í tilfelli tryggingafélagsins.

Mesta magnið í viðskiptum dagsins var með bréf í Kviku eða 480 milljónir króna. Þar á eftir fylgdi Marel með 423 milljónir og Hagar, sem hækkuðu um 0,86%, með 314 milljónir. Magnið hjá VÍS, Icelandair, Arion og Símanum var á bilinu 128 til 189 milljónir en síðastnefnda félagið stóð í stað í viðskiptum dagsins.

Velta á skuldabréfamarkaði var 724 milljónir en þar af voru 163 milljónir í CB21 flokki Íslandsbanka. Afgangurinn skiptist nokkurn veginn til jafns milli verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa.