Beint áætlunarflug Icelandair til Brussel hófst í morgun en þangað verður flogið tvisvar sinnum í viku, á föstudögum og mánudögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en Brussel er sem kunnugt er mikil viðskipta- og stjórnsýslumiðstöð og þangað á erindi gríðarlegur fjöldi gesta í ýmsum erindagjörðum. Jafnframt er þar búsettur fjölmennur hópur fólks af ólíku þjóðerni, sem starfar tímabundið í borginni og ferðast mikið.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að sala í flugið til og frá Brussel hafa farið vel af stað.

„Við höfum þegar ákveðið að framlengja flugið út september í haust vegna meiri eftirspurnar en við áttum von á. Við erum að sjá belgíska ferðamenn nýta sér þetta flug til Íslandsferða, en einnig er áhugi Íslendinga töluvert meiri en við bjuggumst við,“ segir Birkir Hólm í tilkynningunni.

Birkir Hólm segir jafnframt að Icelandair hafi oft kannað möguleika á flugi til og frá Brussel vegna mikilvægis borgarinnar í evrópskum stjórnmálum og viðskiptum.

„Við erum með fluginu fyrst og fremst að höfða til almennra ferðamanna og þeir munu bera flugleiðina uppi,“ segir Birkir Hólm.

„Við vitum jafnframt að margir sem sinna viðskiptum og stjórnsýslu eiga oft leið til borgarinnar og munu fagna því að geta flogið beint. Áætlanir okkar gera svo ráð fyrir að lengja tímabilið á næsta ári. Við erum því bjartsýn á framhaldið."