Icelandair mun hefja áætlunarflug til Þrándheims í Noregi í júníbyrjun 2010.  Flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum, með viðkomu í Bergen á leiðinni frá Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en félagið hefur um árabil flogið daglegt áætlunarflug til Osló, en hóf fyrir tveimur árum reglulegt flug til Bergen á vesturströnd landsins og síðan til Stavanger í sumar.

Næsta sumar bætist svo fjórða norska borgin við, Þrándheimur. Sumarið 2010 flýgur Icelandair því níu sinnum í viku til Osló, fjórum sinnum í viku til Bergen og tvisvar í viku til Stavanger og Þrándheims.

Samfélögin á vesturströnd Noregs, Þrándheimur, Bergen og Stavanger, eru hvert um sig álíka fjölmenn og Ísland, þau hafa efnahagslegan styrk og mjög þróaðan ferðaiðnað, m.a. í tengslum við skemmtiferðaskip sem gera út á bandaríska ferðamenn,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Að auki eru sterk og vaxandi tengsl milli Íslands og þessara byggðarlaga, bæði söguleg og atvinnuleg. Margir Íslendingar eru búsettir á þessum slóðum. Við teljum því að við getum byggt upp hagkvæmt flug á þessa staði og fengið farþega á öllum þremur markaðssvæðum okkar, þ.e. vestanhafs, á Íslandi og í Noregi. Við getum m.a. boðið upp á langtum betri tengingar til Kanada og Bandaríkjanna í gegnum Ísland frá þessum slóðum en áður hefur verið boðið upp á, og reynslan undanfarin tvö sumur er góð.“