Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna í maí á næsta ári. Flogið verður fjórum sinnum í viku yfir sumarmánuðina, frá 17. maí til 13. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Þar segir að Washington sé fimmti nýi áfangastaðurinn sem Icelandair bætir við áætlun sína á næsta ári, en áður hefur félagið kynnt Alicante, Hamborg, Gautaborg og Billund til sögunnar.

Alls verða áfangastaðir Icelandair 31 talsins á árinu 2011 og hafa aldrei verið fleiri.

„Icelandair þekkir mjög vel til flug- og ferðamannamarkaðarins á Washingtonsvæðinu og við sjáum þar ákveðin tækifæri um þessar mundir", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Við ætlum okkur að ná töluverðan fjölda ferðamanna til Íslands frá þessu svæði og munum auk þess bjóða upp á góðar tengingar í gegnum Keflavíkurflugvöll milli Washington og margra Evrópuborga. Þá er Washington einn vinsælasti áfangastaður í Bandaríkjunum fyrir ferðamenn enda höfuðborg landsins og margt þar að sjá og upplifa".

Icelandair mun fljúga til og frá Dulles flugvellinum sem er alþjóðaflugvöllur Washingtonborgar