Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til þriggja nýrra áfangastaða á næsta ári. Það eru borgirnar Anchorage í Alaska, St. Pétursborg í Rússlandi og Zurich í Sviss.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að unnið sé að frágangi heildarflugáætlunar fyrir árið 2013 og verður hún kynnt á næstunni.

Fram kemur að Flugið til Anchorage hefst 15. maí og flogið verður tvisvar í viku til 15. september. Með fluginu eru nýttir þeir möguleikar sem felast í leiðakerfi félagsins og flugfarþegum á leið milli Alaska og Evrópu boðin styttri og hagkvæmari ferðatilögun en áður þekkist.

Flugið til St. Pétursborgar hefst 1. júní og flogið verður tvisvar í viku til 17. september.

„Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint áætlunarflug á milli Íslands og Rússlands og því um tímamót í samgöngusögunni að ræða. Með fluginu eru einnig nýttir þeir möguleikar sem felast í leiðakerfi félagsins og tengiflugi milli Rússlands og Bandaríkjanna,“ segir í tilkynningunni.

Flugið til Zurich verður tvisvar í viku frá 1. júní til 14. september.

„Vegna legu Íslands og hins öfluga leiðakerfis okkar um Keflavíkurflugvöll getum við boðið upp á flug milli Alaska og Evrópuborga sem er hagkvæmt og þægilegt, og það er undirstaða þessa flugs. En auk þess er opnuð leið inn á nýjan markað fyrir íslenska ferðaþjónustu og spennandi áfangastað í beinu flugi fyrir íslenska ferðamenn,” segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningunni.

„Töluverður straumur flugfarþega er á milli Evrópu og Alaska, bæði vegna öflugs atvinnulífs, sem m.a. byggir á fiskveiðum og olíu og gasvinnslu, og vegna ferðaþjónustu, en Alaska er mikil útivistarparadís. Þessir farþegar þurfa að millilenda í Bandaríkjunum á leið sinni. Með því að millilenda á Íslandi í staðinn geta þeir stytt ferðatíma sinn um þrjár klukkustundir eða meira”, segir Birkir.

Flug til Anchorage frá Íslandi tekur rúmlega 7 klukkustundir, sem er lítið eitt styttra en t.d. flug til Seattle og Denver. Flugleiðin liggur í norðurátt frá Íslandi, yfir pólsvæðið.

Flug frá St. Pétursborg til Íslands tekur tæplega 4 klukkustundir og tímamunur milli borgarinnar og Íslands er sömuleiðis 4 klukkustundir.