Icelandair hefur í dag áætlunarflug til Denver í Colorado í Bandaríkjunum. Þetta er í fyrsta sinn sem Icelandair flýgur til Denver en flogið verður fjórum sinnum í viku allt árið. Denver er mikil miðstöð samgangna og flugvöllurinn er sá tíundi stærsti í heimi og fimmti stærsti í Bandaríkjunum.

„Bókunarstaðan er góð og í takt við okkar væntingar," segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er lítið um beint flug á milli Denver og Evrópu þannig að við gerum ráð fyrir því að með flugi til Denver náum við líka að auka tíðnina til Evrópu. Þessi áfangastaður er líka ólíkur öðrum að því leyti að það er mikil umferð yfir vetrartímann vegna skíðasvæðanna í kring."

Denver er níunda borgin sem Icelandair flýgur áætlunarflug til í Norður-Ameríku. Hinar borgirnar eru New York, Boston, Seattle, Minneapolis, Washington og Orlando í Bandaríkjunum, og Toronto og Halifax í Kanada.

Þetta beina flug frá Íslandi hefur vakið mikla athygli í Denver og hefur borgarstjórinn, Michael Hancock, ásamt viðskiptasendinefnd, dvalið hér á landi frá því á þriðjudag. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, verður meðal farþega í fyrsta fluginu og mun taka þátt í dagskrá og Íslandskynningu í Denver um helgina.

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2012 er sú stærsta í sögu félagsins og um 14% umfangsmeiri en á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 2 milljónir á árinu 2012, en voru tæplega 1,8 milljónir á árinu 2011. Alls verða 16 Boeing 757 flugvélar nýttar til áætlunarflugsins í sumar, tveimur fleiri en á síðasta ári.