Icelandair mun hefja reglulegt áætlunarflug til Newark flugvallar í New Jersey þann 28. október næstkomandi. Flogið verður fjórum sinnum í viku, á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Icelandair hefur flogið til JFK flugvallarins í New York í rúm 60 ár og mun halda því áfram. Í sumar flýgur Icelandair 14 sinnum í viku, eða tvö flug daglega, til JFK. Þá hefur verið flogið daglega í nokkur ár utan sumartímans.

Í tilkynningunni er haft eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að undanfarin misseri hafi flug Icelandair til New York aukist og í vetur voru tíu flug í viku. Var þá tveimur flugvélum flogið nánast samhliða yfir hafið og inn á JFK flugvöllinn á vissum dögum.

Talið hafi verið rétt að færa hluta af þessari starfsemi yfir á hinn alþjóðaflugvöllinn á New York svæðinu, Newark. Það skapi Icelandair og ferðaþjónustunni ný markaðstækifæri og auki sveigjanleika og fjölbreytni í leiðakerfinu.