Icelandair hefur reglulegt áætlunarflug til Newark-flugvallar í New York í Bandaríkjunum í dag. Fluginu vestur um haf verður fagnað með móttökuathöfn í Bandaríkjunum. Icelandair áformar að fljúga til Neward fjórum sinnum í viku, þ.e. á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að flugfélagið hefur flogið til JFK-flugvallarins í New York í rúm 65 ár og mun halda því áfram. Í sumar flaug Icelandair 14 sinnum í viku, eða tvö flug daglega til JFK-vallar. Þá hefur einnig verið flogið daglega til borgarinnar í nokkur ár utan sumartímans.

Haft er eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að flugleiðin til og frá New York hafi vaxið mikið.

Við teljum rétt að færa hluta af þessari starfseminni yfir á hinn alþjóðaflugvöllinn á New York svæðinu. Það skapar okkur og ferðaþjónustunni ný markaðstækifæri og eykur sveigjanleika og fjölbreytni í leiðakerfi okkar”, segir hann.

Newark  verður ellefti áfangastaður Icelandair í Norður Ameríku og 36. staðurinn í leiðakerfinu á þessu ári.