Tenerife er nýr áfangastaður í leiðakerfi Icelandair og lagði fyrsta áætlunarflug félagsins af stað þangað frá Keflavík nú í morgunsárið. Að því er kemur fram í fréttatilkynningu verður flogið einu sinni í viku í maí, en gert er ráð fyrir að flogið verði tvisvar til þrisvar sinnum í viku þegar áhrif COVID-19 faraldursins hafa minnkað og ferðatakmarkanir verða rýmkaðar.

„Í gegnum tíðina höfum við einungis flogið til Kanaríeyja í leiguflugi fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Við höfum hins vegar lengi horft til þess að bæta Tenerife við flugáætlun okkar enda vinsæll áfangastaður á meðal Íslendinga sem fellur vel að leiðakerfi Icelandair. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð síðan tilkynnt var um þessa viðbót," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group í tilkynningunni.

Eftir langt tímabil lágmarksstarfsemi vegna kórónuveirufaraldursins stefni Icelandair á að auka flugið jafnt og þétt í maí og júní. Auk Tenerife, muni Icelandair hefja flug á ný til Munchen, New York, Seattle, Chicago, Denver og Washington í maímánuði.