Icelandair hefur áætlunarflug til Torontoborgar í Kanada á morgun. Í fréttatilkynningu segir að helsta forsenda flugsins sé gagnkvæmur samningur um flugréttindi sem stjórnvöld Íslands og Kanada undirrituðu á síðasta ári.

„Við biðum lengi eftir því að fá aðgang að þessum markaði og förum inn á hann með krafti og því hugarfari að efla ferðalög milli landanna. Stjórnvöld hafa unnið mjög gott starf við að opna fyrir þessi samskipti og það færir okkur spennandi tækifæri til að þróa leiðakerfi félagsins inn á nýjar brautir", segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í fréttatilkynningu.