Icelandair hefur ákveðið að hefja flug til bandarísku borgarinnar Baltimore í maí. Baltimore var í leiðakerfi Icelandair um árabil, en hlé hefur verið á flugi félagsins þangað í rúman áratug. Borgin er 22. áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu. Flogið verður fjórum sinnum í viku frá 28. maí fram í miðjan október. Sala farseðla er þegar hafin.

„Með fluginu til Baltimore (BWI flugvöll)  erum við að auka framboð okkar inn á hið fjölmenna Washington/Baltimore svæði, en við fljúgum nú þegar á Dulles flugvöllinn í Washington. Við lítum á þetta sem eitt markaðssvæði, þarna búa um 10 milljónir íbúa og höfuðborgin er að sjálfsögðu mikil miðstöð stjórnsýslu og viðskipta í Bandaríkjunum“, segir Björgólfur Jóhannson, forstjóri Icelandair.

70 km til Dulles flugvallar í Washington

Um 70 kílómetrar eru á milli flugvallanna. Þetta er fjórða stórborgarsvæðið sem Icelandair þjónar með flugi á tvo flugvelli. Nú þegar er boðið upp á flug til JFK og Newark flugvallanna í New York, til Heathrow og Gatwick í London og til Charles De Gaulle og Orly flugvallanna í París.

„Við leggjum nú áherslu á fjölgun áfangastaða í leiðakerfi Icelandair og til viðbótar við Berlín, Dublin, Cleveland og Dallas, sem þegar hafa verið kynntar til leiks, bætum við tveimur nýjum áfangastöðum vestan hafs við í sumar; Baltimore og Kansas City, sem kynnt var til sögunnar í gær,“ segir Björgólfur.

„Þá eru áfangastaðirnir orðnir 22 vestan hafs en voru 18 í fyrra og Icelandair orðið meðal þeirra evrópsku flugfélaga sem fljúga til flestra áfangastaða í Norður-Ameríku.“

Nú í vor mun Icelandair taka í notkun þrjár nýjar 160 sæta Boeing 737 MAX 8 flugvélar og verða alls 33 flugvélar nýttar til farþegaflugsins í sumar, 26 af Boeing 757 gerð og fjórar af Boeing 767-300 gerð auk nýju vélanna.