Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi stóðst nánast í stað í 1.922,31 stigi, með 0,02% hækkun í um 2 milljarða viðskiptum í kauphöllinni í dag.

Mest hækkaði gengi bréfa Icelandair, eða um 4,75% í 229 milljón króna viðskiptum og stendur það nú í 9,70 krónum. Þess má geta að lægst fór gengi félagsins í 6,73 krónur þriðjudaginn 12. mars síðastliðinn, svo hækkunin síðan þá nemur 44,1%.

Næst mest var hækkun á gengi bréfa Arion banka, eða um 2,71%, í 114 milljóna króna viðskiptum.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Heimavalla, eða 2,38%, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir innan við milljón krónur. Fór gengi bréfanna sem stefnt er á að verði afskráð úr kauphöllinni niður í 1,23 krónur, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hljóðar yfirstandandi kauptilboð í bréf félagsins á 1,30 krónur.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa HB Granda, eða um 2,06%, niður í 30,95 krónur, í 47 milljón króna viðskiptum.

Mestu viðskiptin voru aldrei þessu jafnt ekki í Marel, en einungis var verslað fyrir 37 milljónir króna í félaginu, sem lækkaði um 0,75%, niður í 527,0 krónur í dag.

Þau voru þvert á móti með bréf í Símanum, eða fyrir 420 milljónir króna, en í þeim hækkaði gengi bréfanna í 3,95 krónur, og nam hækkunin 2,07% sem jafnframt var þriðja mesta hækkunin.